Tuesday, May 19, 2009

Góðar myndir eru gulls ígildi


Góðar ljósmyndir segja meira en þúsund orð. Það sem meira er, þær tala öll tungumál reiprennandi. Fagleg ljósmyndun er því afar mikilvæg þeim, sem halda vilja úti árangursríkum vefsíðum.

Ljósmyndir eru órjúfanlegur þáttur í uppbyggingu vefsíðna. Þær segja sögu um fyrirtækið sjálft, vöru þess og þjónustu, og veita texta viðeigandi stuðning. Góðar ljósmyndir eru hverri vefsíðu til bóta, en slæmar myndir vekja vísast upp neikvæð viðbrögð gesta.

Mikilvægt er að hafa myndefni á hverri undirsíðu vefjarins og í réttu hlutfalli við lengd texta. Myndir þurfa að vera í góðri upplausn og af réttu sniði (jpg, png, gif), settar á réttan stað á síðunni og tengdar textanum. Mikilvægt er að merkja (e. tag) myndir og nefna þær lýsandi nöfnum.

Hafa skal í huga, að litasamsetning sé hófleg, svo myndir verði ekki þungamiðja síðunnar. Slíkt er aðeins merki um rýrt efnisinnihald.Ef vefstjórar hafa ekki yfir góðu myndasafni að ráða er góð latína að kaupa aðgang að myndabönkum á vefnum. Forðast skal að hirða myndir af öðrum vefsíðum til notkunar á fyrirtækjavefjum, nema tekið sé þar fram, að slíkt sé heimilt og myndirnar séu nauðsynlegar.
Birtist áður í Markaðnum í Fréttablaðinu.