Hugtakið SEO (Search Engine Optimization) hefur jafnan verið þýtt leitarvélabestun á íslensku. Tiltölulega nýlega hóf þó Dagur í Libius að breyta þýðingunni í leitarvélagreiningu.
Þessi breyting er að sumu leyti góð, því orðið "bestun" er frekar óþjált, en hvernig á annars að þýða enska orðið "optimization" í einu orði?
Verra er, að til er annað bandarískt kerfi sem kallast "Web analytics" og hefur Google Analytics stöðuglega verið að breiðast út.
Þessi hugtök mætti ekki síður íslenska sem "greiningu"; þá "vefgreiningu" eða "leitarvélagreiningu", þar sem Google er komið til sögunnar.
"Vefgreining" er tvennskonar, annars vegar "off-site" (utan vefsíðu) og hins vegar "on-site" (innan vefsíðu).
Utan-vefsíðu-greining felst í að meta markhóp vefsíðunnar, mæla hverjir séu líklegastir til að vilja heimsækja vefsíðuna og staldra þar við, en einnig þáttum sem flokka mætti undir stöðugreiningu, þarfagreiningu og samkeppnisgreiningu.
Innan-vefsíðu-greining felst hins vegar í mælingum á heimsóknum fólks á síðuna, hvaðan það kemur, á hvaða síðu það dettur fyrst inn, hvaða síður það skoðar og hversu lengi það staldrar við, svo dæmi séu tekin. Með niðurstöður þeirrar greiningar má síðan meta hvaða þætti þarf að bæta og hvar styrkleiki síðunnar liggur.
En til að stunda slíkar mælingar þarf forrit, sem Google hefur m.a. reynt að bjóða fram. En grunnurinn felst þó í góðri vefmælingu eigin síðu. Og þá er nauðsynlegt að hafa úr góðu vefumsjónarkerfi að moða, en sum þeirra, t.d. vefumsjónarkerfi Allra Átta, býr yfir mjög fullkomnu, innbyggðu mælingakerfi.
En ætti leitarvélagreining frekar að standa fyrir "web analytics" þættina en leitarvélabestun?
Þetta er gild spurning. Sjálfur hef ég fallist á, fyrir mitt leyti, að nota bæði hugtökin til að skilgreina SEO, en þó frekar af pragmatískum ástæðum en öðrum. Það að breyta einhliða grundvallaðri þýðingu á ensku fræðahugtaki er ekki mjög skynsamlegt, því Palli er ekki einn í heiminum. Því vil ég frekar nota leitarvélabestun, eins og flestir aðrir, og geri hérmeð dálitla tilraun til að láta leitarvélagreiningu ná frekar yfir "analytics", í von um að hægt verði að samræma íslenska orðnotkun hvað þessi ensku hugtök snertir.
En hvort það takist eður ei verður framtíðin að leiða í ljós.
No comments:
Post a Comment